EULAR 2016 – Ný og endurskoðuð meðferðarráð í vefjagigt (tekið af vefnum vefjagigt.is 28.01.2017)
Í ár birti EULAR (the europian leage against rheumatism) nýjar tillögur að meðferð í vegjagigt en þær eldri eru síðan 2007. Þetta módel er byggt á rýni á niðurstöðum 107 viðurkenndra vísindagreina, en þverfaglegur hópur á vegum EULAR vann að þessu greiningar- og matsferli undir stjórn prófessors Gary MacFarlane.
Niðurstöður þessa þverfaglega Eularhóps eru að grunnmeðferðarþættir eigi alltaf að vera:
- Greining á sjúkdómnum
- Viðeigandi fræðsla
- Hreyfing/þjálfun við hæfi
Þessi tilmæli eru semsagt byggð á vísindalegum grunni en þau fela í sér að það að fá greiningu, viðeigandi fræðslu um sjúkdóminn og meðferðarúrræði og að fá leiðbeiningu og stuðning við að koma þjálfun í farveg eigi að vera grunnþættir í meðferðarferli í vefjagigt.
Ef þessar íhlutanir duga ekki einar og sér þá þarf sértæk og einstaklingsmiðuð meðferðarúrræði við einkennum en EULAR tilmælin eru þá eftirfarandi:
- Mælt er með hugrænni atferlismeðferð fyrir þá einstaklinga sem eru með kvíða eða þunglyndi sem afleiðu vefjagigtar eða annarskonar hegðunarfrávik.
- Mælt er með geðdeifðarlyfjum fyrir þá einstaklinga sem eru haldnir geðsjúkdómi á illvígara stigi.
- Mælt er með tramadoli, pregabalini eða duloxitine fyrir einstaklinga með illvíga verki og/eða svefntruflanir.
Eins og kom fram í upphafi þá eru þessar leiðbeiningar settar fram eftir bestu vísindalegu þekkingu á vefjagigt í dag en enn er þó margt á huldu sem vonandi skýrist betur á næstu árum. Í dag eru fá lyf sem gagnast vel í vefjagigt og enn hafa engin lyf verið sammþykkt í Evrópu sem sértæk lyf í vefjagigt en í Bandaríkjunum hafa nokkur lyf verið samþykkt sem sértæk lyf í vefjagigt. Niðurstöður lyfjarannsókna hafa t.d. sýnt að einungis 40% -50% fólks með vefjagigt hafa einungis um 30% bata af viðkomandi lyfi, hinum gagnast þau ekki.
Og þó að þessi nýju tilmæli EULAR feli í sér að þjálfun sé sterklega það sem mælt er með þá er ekki enn vitað hvaða þjálfun hentar best eða gefur mestan bata. Og sama má segja um hugræna atferlismeðferð þar vantar matstæki til að meta hvort að sú meðferð muni henta einstaklingnum því að hún hentar einfaldlega ekki öllum.
En það er frábært að hópur vísindamanna hafi unnið að því að setja fram þetta módel og það er frábært að vita til þess að um allan heim eru vísindamenn að leggja sitt á vogarskálarnar til að bæta þekkingu á vefjagigt og frábærast finnst mér að koma á stórar ráðstefnur um gigt og/eða verki og sjá og heyra fjallað um vefjagigt eins og alla aðra sjúkdóma – þar eru engar efasemdir um tilurð VEFJAGIGTAR.
Og í lokin langar mig til að geta þess að Þraut ehf – miðstöð vefjagigtar og tengdra sjúkdóma vinnur eftir þessu sama módeli og EULAR var að gefa út.
Höfundur: Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjálfari MT’c, MPH.
http://www.vefjagigt.is/frettir/eular-2016-ny-og-endurskodud-medferdarrad-i-vefjagigt