Sjúkra­þjálfun eldri borgara – Ég var í þrísetnum barna­skóla

Jakobína Sigurðardóttir skrifar 8. desember 2020, birt á visir.is

„Baby Boom“ kynslóðin er að komast á ellilífeyrisaldur. Þegar þessi kynslóð var að alast upp voru mörg börn á hverju heimili í góðæri eftirstríðsáranna. Barnaskólinn í hverfinu mínu var vel byggður og góður en allt of lítill fyrir þennan mikla barnaskara. Þess vegna var brugðið á það ráð að þrísetja skólann. Einn hópur kom klukkan átta, annar klukkan ellefu og sá þriðji klukkan tvö. Mömmurnar voru heima og þetta gekk vel. Á menntaskólaárunum var ég um tíma í tvísetnum skóla, a.m.k. fyrstu árin. „Baby Boom“ kynslóðin hefur haft ruðningsáhrif ef svo má segja. Skólar voru stækkaðir, og innviðir þjóðfélagsins stækkuðu, á endanum voru skólar einsetnir. Mömmurnar voru ekki lengur heima og börnin fengu mat í skólanum, allt féll í ljúfa löð.

Nú er komið að síðasta kafla ruðningsáhrifa „Baby Boom“ kynslóðarinnar. Hún er að komast á ellilífeyrisaldur og HVAÐ ÞÁ-? Við munum ekki tví- eða þrísetja hjúkrunarheimili, -eða hvað?

Á næstu árum má vænta mikillar fjölgunar landsmanna í hópi eldri borgara. Reiknað er með að landsmönnum 67 ára og eldri fjölgi um 42% á næstu fimmtán árum eða um 30 þúsund. Fjölgun 85 ára og eldri verður veruleg eftir 2028. Reiknað er með að þessi hópur næstum þrefaldist að stærð á tímabilinu frá 2019 til 2060, úr tæplega 2% í rúmlega 5% af þjóðinni.

Við þurfum sem samfélag að vera tilbúin til þess að gera eldri borgurum mögulegt að lifa með reisn. Gera þeim kleift að vera eins sjálfbjarga og mögulegt er eins lengi og nokkur kostur er. Stærsti þátturinn í að gera þetta mögulegt er að viðhalda góðri heilsu og þá kemur gildi þjálfunar strax í hugann. Það sýnir sig betur og betur með rannsóknum í nútímanum, það sem sjúkraþjálfarar hafa alltaf vitað, að þjálfun er einn mikilvægasti þátturinn í að halda góðri heilsu í gegnum lífið. Sýnt hefur verið fram á að þjálfun hægir á framgangi öldrunarsjúkdóma.

Sjúkraþjálfarar eru sérhæfðir í að þjálfa fólk og viðhalda færni við allar mögulegar aðstæður frá vöggu til grafar. Þjálfun eldri borgara og allt það sem gera má til þess að endurhæfa og viðhalda færni gerir þeim kleift að búa lengur sjálfbjarga heima við. Þjálfun á styrk, jafnvægi og úthaldi bætir ekki einungis heilsu, bæði líkamlega og andlega, heldur stuðlar hún einnig að meira öryggi, færri byltum og færri brotum.

Sjúkraþjálfun er nú í boði á stofum úti í bæ og inni á heimilum fyrir þá sem veikari eru. Þjónusta við eldri borgara á þennan hátt er samfélagslega miklvæg og seinkar og eða fækkar innlögnum á sjúkrahús og á hjúkrunarheimili. Með því má spara háar fjárhæðir fyrir samfélagið á sama tíma og aldraðir geta búið lengur heima við verið meira sjálfbjarga og haldið virðingu sinni og reisn.

Mikilvægt er að heilbrigðisyfirvöld og landsmenn allir séu meðvitaðir um gildi þjálfunar. Sparnaður á þessu sviði getur valdið óþarfa og óvæntum útgjöldum annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Sjúkraþjálfarar hafa nú starfað án samnings við Sjúkratryggingar, á reglugerð, í bráðum tvö ár. Nýverið var reglugerð framlengd til tveggja mánaða með ákvæði um þrengra aðgengi almennings að sjúkraþjálfun þar sem bráðameðferðir voru felldar niður. Skýtur hér skökku við á tímum þar sem álag á heilbrigðiskerfið er mikið. Vilji ráðamenn bregðast á skynsamlegan hátt við fjölgun aldraðra þá er lykillinn að því stórfelld efling sjúkraþjálfunar og almennrar endurhæfingar. Hver kynslóð hefur mikið fram að færa. Enginn vill verða byrði á samfélaginu. „Baby Boom“ kynslóðin hefur ekki sungið sitt síðasta.

Höfundur er sjúkraþjálfari.

Jafnvægisþjálfun skilar góðum árangri (mbl 19.3.2019)

Óstöðugt aldrað fólk getur bætt jafnvægi, gönguhraða, vöðvastyrk og öryggi við daglegar athafnir með skynörvandi jafnvægisþjálfun. Þetta er meðal þess sem kemur fram í doktorsritgerð Bergþóru Baldursdóttur

Á Landakoti er sérhæfð móttaka fyrir aldrað fólk með sögu um jafnvægisskerðingu, byltur og/eða beinbrot. Anton Brink

Bergþóra er sérfræðingur í öldrunarsjúkraþjálfun. Hún ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands fimmtudaginn 21. mars. Ritgerðin ber heitið: Jafnvægisstjórnun og áhrif skynþjálfunar: Óstöðugt eldra fólk og einstaklingar sem hlotið hafa úlnliðsbrot við byltu.

„Á Landakoti, þar sem ég vinn sem sjúkraþjálfari, er starfrækt sérhæfð móttaka fyrir aldraða einstaklinga með sögu um jafnvægisskerðingu, byltur og/eða beinbrot. Þar höfum við um nokkurra ára skeið beitt skynörvandi jafnvægisþjálfun. Þetta er þjálfunar­aðferð sem ég, ásamt leiðbeinanda mínum í doktorsverkefninu, dr. Ellu Kolbrúnu Kristinsdóttur, þróuðum á Landakoti. Hún beinist að örvun skyns í fótum, jafnvægiskerfis í innra eyra og þjálfun fallviðbragða. Þessi þjálfun reyndist strax áhrifarík og vildi ég undirbyggja notagildi hennar með rannsóknum,“ segir Bergþóra innt eftir því af hverju þetta efni varð fyrir valinu í doktorsverkefni hennar.

Tveir ólíkir hópar

Í doktorsverkefninu rannsakaði hún áhrif skynþjálfunarinnar á meðal óstöðugs eldra fólks og 50 til 75 ára einstaklinga sem höfðu dottið og úlnliðsbrotnað.

„Ástæða þess að ég valdi þessa tvo hópa fólks er annars vegar hversu algengt vandamál óstöðugleiki og byltur eru hjá öldruðum. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt að úlnliðsbrot hjá þessum yngri aldurshópi hafa forspárgildi fyrir síðari brot, þar á meðal mjaðmarbrot hjá öldruðum sem skert geta verulega lífsgæði, jafnvel valdið dauða og eru mjög kostnaðarsöm,“ segir Bergþóra sem vildi rannsaka hvort skynþjálfunin gæti bætt stöðugleika og minnkað byltuhættu hjá þessum einstaklingum. „Jafnframt vildi ég rannsaka hvað einkenndi þá sem höfðu dottið og úlnliðsbrotnað og bera þann hóp saman við sambærilegan hóp einstaklinga sem ekki höfðu dottið og úlnliðsbrotnað.“

Framkvæmd rannsóknar

Mælingar og þjálfun aldraða hópsins fór fram í sjúkraþjálfun á Landakoti. Þátttakendur mættu í 18 æfingatíma undir handleiðslu sjúkraþjálfara og þjálfuðu í sex vikur. Skráður var fjöldi byltna tólf mánuðum fyrir þjálfun, á þjálfunartímabilinu og sex mánuðum eftir að henni lauk.

„Fólkið sem hafði úlnliðsbrotnað tók þátt í rannsókninni tveimur til fimm mánuðum eftir brotið. Því var skipt tilviljunarkennt í tvo hópa til viðbótar við hefðbundna brotameðferð, annars vegar í hóp sem fékk skynörvandi jafnvægisþjálfun og hins vegar viðmiðunarhóp sem gerði æfingar sem beindust að því auka styrk og stöðugleika úlnliðsins,“ lýsir Bergþóra en hjá þeim sem höfðu úlnliðsbrotnað, voru æfingaskiptin sex undir handleiðslu sjúkraþjálfara, auk daglegra heimaæfinga í 12 vikur.

Mælingar fóru fram á rannsóknarstofu í heyrnar- og jafnvægisvísindum við læknadeild Háskóla Íslands og á Landspítala Landakoti. Skynörvandi jafnvægisþjálfunin fór fram í Sjúkraþjálfuninni Styrk undir handleiðslu Hólmfríðar H. Sigurðardóttur sjúkraþjálfara. Úlnliðsþjálfunin fór fram í sjúkraþjálfun á Landspítala í Fossvogi undir handleiðslu Anne Melén sjúkraþjálfara.

Jafnvægið er flókið fyrirbæri

En hvað er skynörvandi jafnvægisþjálfun? „Stjórnun jafnvægis í uppréttri stöðu og hreyfingu er flókið ferli samhæfðra hreyfinga sem stýrt er af miðtaugakerfinu en miðtaugakerfið nýtir fyrri reynslu og boð frá skynkerfum. Þannig veitir sjónin upplýsingar um aðstæður í umhverfinu og skynviðtakar í vöðvum, sinum, liðböndum og húð gefa upplýsingar um stöðu og hreyfingar líkamans ásamt þungadreifingu á iljum. Jafnvægiskerfi í hægra og vinstra innra eyra skynja stöðu og hreyfingar höfuðs með tilliti til aðdráttarafls jarðar, þau samþætta höfuð- og augnhreyfingar og senda boð sem virkja fallviðbrögð þegar stöðugleika okkar er ógnað,“ útskýrir Bergþóra.

Hún lýsir því að hrörnunarbreytingar tengdar auknum aldri hafi fundist í öllum kerfum líkamans sem taki þátt í jafnvægisstjórnun. Þá fækki skynviðtökum í jafnvægiskerfi innra eyra og taugaþráðum sem bera boð frá þeim með auknum aldri. „Þessar breytingar geta gerst með ósamhverfum hætti, þ.e. minni starfsemi verður í jafnvægiskerfi annars eyrans miðað við hitt. Slík ósamhverfa leiðir til truflaðra skilaboða frá jafnvægiskerfinu, fallviðbrögð verða ómarkvissari og hætta á byltum eykst,“ segir Bergþóra og bendir einnig á að skyn og vöðvastyrkur í fótum minnki með hækkandi aldri og tengist einnig óstöðugleika og dettni meðal aldraðra.

„Hugsunin að baki skynörvandi jafnvægisþjálfuninni er að örva og bæta nýtingu á því skyni sem einstaklingurinn býr yfir, ásamt því að bæta úrvinnslu upplýsinga sem berast frá hinum mismunandi skynkerfum til miðtaugakerfis. Tilgangurinn er einnig að þjálfa upp markvissari fallviðbrögð til að gera einstaklinginn hæfari til þess að bregðast við óvæntri jafnvægisröskun og forðast byltur.“

Fjölbreyttar æfingar

Í æfingunum eru einstaklingarnir berfættir, en það örvar skynvitund í fótum að sögn Bergþóru. „Athygli þeirra beinist ávallt að dreifingu þunga á iljar til að örva skynjun og bæta stjórnun á stöðu og hreyfingum líkamans. Æfingarnar eru í byrjun gerðar á hörðu undirlagi en síðan einnig á mjúku, sem er erfiðara. Þjálfaður er stöðugleiki samfara hreyfingum á höfði í kyrrstöðu og á hreyfingu með augu ýmist opin eða lokuð. Fallviðbrögð eru þjálfuð sérstaklega og fólki kennt að bregðast við jafnvægisröskun til að hindra að það detti. Þessar æfingar krefjast mikillar einbeitingar af þátttakendum.“ Til að framfarir verði sem mestar segir Bergþóra að mikilvægt sé að æfingarnar verði sífellt erfiðari upp að mörkum sem eru við eða ofan getu hvers einstaklings.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að skynörvandi jafnvægisþjálfunin bætti jafnvægi, gönguhraða, vöðvastyrk og öryggi við daglegar athafnir á meðal hinna óstöðugu öldruðu einstaklinga.

Jákvæðar niðurstöður

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að skynörvandi jafnvægisþjálfunin bætti jafnvægi, gönguhraða, vöðvastyrk og öryggi við daglegar athafnir á meðal hinna óstöðugu öldruðu einstaklinga. „Jafnframt gáfu niðurstöður til kynna að skynþjálfunin gæti fækkað byltum hjá þeim. Hjá fólkinu sem hafði úlnliðsbrotnað batnaði jafnvægið í kjölfar þjálfunarinnar, sérstaklega hjá þeim sem mældust með skert jafnvægi við upphaf hennar.“

Niðurstöður leiddu einnig í ljós að þeir sem höfðu dottið og úlnliðsbrotnað voru með marktækt fleiri byltur og beinbrot að baki en þeir sem ekki höfðu hlotið úlnliðsbrot við byltu. „Þá hafði þessi hópur þróað með sér þætti sem spá fyrir um frekari byltur og brot, þar á meðal skerðingu á skyni í fótum, ójafna starfsemi í jafnvægiskerfi innra eyra og skertan vöðvastyrk í fótum,“ segir Bergþóra.

Þarf að huga meira að jafnvægisþjálfun

Bergþóra segir úlnliðsbrot algengust hjá einstaklingum á aldrinum 45-60 ára. Meðferð þeirra sem hljóti úlnliðsbrot við byltu í dag, beinist að meðhöndlun brotsins. Jafnvægi sé sjaldnast metið, þar sem takmörkuð þekking hafi legið fyrir um það hvort aldurstengdar breytingar í skyn- og hreyfikerfum séu farnar að skerða jafnvægisstjórnun hjá þessum hópi.

„Mínar rannsóknarniðurstöður styðja mikilvægi þess að þeir sem detta og úlnliðsbrotna, fái fræðslu um að slíkt brot geti verið vísbending um að viðkomandi hafi þróað með sér áhættuþætti sem spá fyrir um frekari byltur og beinbrot. Því ætti að benda þeim á mikilvægi þess að láta meta jafnvægi sitt og fá ráðleggjandi æfingar til að viðhalda því ef ástæða þykir. Í slíku jafnvægismati mætti líta til þeirra þátta sem rannsókn mín sýndi að tengdust því sterkast að viðkomandi tilheyrði úlnliðsbrota hópnum. Einstaklingum sem mælast með skert jafnvægi ætti að standa til boða skynþjálfun eins og sú sem við þróuðum í sjúkraþjálfun á Landakoti eða sambærileg jafnvægisþjálfun sem sannað hefur gildi sitt í rannsóknum.“

Markmiðið alltaf að koma heil heim(mbl.is 11.mars 2019)

Inga Dagmar í sínu náttúrulega umhverfi uppi á fjalli.
Inga Dag­mar í sínu nátt­úru­lega um­hverfi uppi á fjalli. Ljós­mynd/​Aðsend

Inga Dag­mar Karls­dótt­ir er sjúkraþjálf­ari sem starfar hjá Land­spít­al­an­um og Heima­sjúkraþjálf­un á virk­um dög­um.

Um helg­ar má oft­ar en ekki finna hana uppi á fjöll­um, þá annaðhvort á fjalla­skíðum eða á göngu þar sem hún sinn­ir göngu­leiðsögn und­ir merkj­um Herðubreiðar, en það er fyr­ir­tæki henn­ar sem sér­hæf­ir sig í ferðaskipu­lagn­ingu. „Ég hef alla tíð verðið mikið á skíðum frá því ég var ung­ling­ur. Þegar ég var 17 ára göm­ul fór ég í Hjálp­ar­sveit skáta í Reykja­vík og byrjaði að stunda úti­vist af full­um krafti og þá var ekki aft­ur snúið. Við skíðuðum rosa­lega mikið í Hjálp­ar­sveit­inni og fór­um út um allt á ut­an­braut­ar­göngu­skíðum hvort sem það var upp á Hvanna­dals­hnúk, yfir Vatna­jök­ul eða inn á há­lendið. Í mörg ár var ég ein­göngu á Telemark-skíðum af því að mér þótti það frek­ar kúl. Síðar ákvað ég að prófa fjalla­skíði og síðan þá hef­ur fjalla­skíðamennska verið mín ástríða,“ seg­ir Inga Dag­mar.

Eina stelp­an á Íslandi

Ástríðan ýtti henni áfram á fjalla­skíðabraut­ina og fór Inga Dag­mar smám sam­an að bæta við sig þekk­ingu sem þurfti til að geta skíðað og kennt öðrum af ör­yggi, því hætt­urn­ar leyn­ast víða í þess­ari íþrótt. „Ég vann lengi vel fyr­ir Íslenska fjalla­leiðsögu­menn og hafði alltaf langað til að fara að leiðsegja fjalla­skíðaferðir vegna þess að mér þótti það bæði heill­andi og skemmti­legt. En það krefst fagþekk­ing­ar.  Hjá Fjalla­leiðsögu­mönn­un­um bauðst mér að fara á al­vörusnjóflóðanám­skeiðið Level 1. Í kjöl­farið á því fór ég að sækja mér meiri mennt­un á sviði skíðaleiðsagn­ar og tók tvö sér­hæfð nám­skeið hjá Fé­lagi ís­lenskra fjalla­leiðsögu­manna sem heita Skíðaleiðsögn 1 og 2 . Það eru mikl­ar for­kröf­ur til að kom­ast inn á þessi nám­skeið enda eru þau líka mjög krefj­andi. Maður er meðal ann­ars met­inn í skíðafærni, leiðar­vali, staðar- og veðurþekk­ingu, hóp­stjórn­un, áhættu­stýr­ingu, sprungu­björg­un, mati á snjóflóðahættu, ýla­leit og kennslu ásamt fullt af öðrum þátt­um skíðaleiðsagn­ar. Þegar upp var staðið voru þetta frá­bær nám­skeið og góð reynsla. Þekk­ing­in sem ég fékk ýtti mér af stað. Lík­lega er ég eina stelp­an a Íslandi sem hef klárað þessi nám­skeið enn sem komið er. Mér finnst líka mjög gef­andi og gam­an að kenna fólki að taka sín fyrstu skref í fjalla­skíðamennsku.“

Hættur geta leynst víða á fjöllum og því borgar sig ...
Hætt­ur geta leynst víða á fjöll­um og því borg­ar sig að fara var­lega. Ljós­mynd/​Aðsend

Hætt­ur leyn­ast víða

Inga Dag­mar fann að áhugi á íþrótt­inni var sí­fellt meiri og mik­il spurn eft­ir kennslu og þjálf­un, og þá sér­stak­lega á Suður­land­inu. Í kjöl­farið stofnaði hún fyr­ir­tækið Fjalla­skíðun þar sem ein­stak­ling­ar og hóp­ar geta sótt nám­skeið og í þá þekk­ingu sem Inga Dag­mar býr yfir. „Eft­ir að ég gerði sam­starfs­samn­ing við Fjalla­kof­ann í fyrra gerði það mér kleift að opna heimasíðu fyr­ir fyr­ir­tækið, þetta allt sam­an hef­ur hjálpað mér mikið og hvatt áfram.“

Inga Dag­mar seg­ir hætt­ur leyn­ast víða ef ekki er vel að gáð og því borgi sig að fara vel þjálfaður á fjöll. „Það get­ur verið hættu­legt að skíða ut­an­braut­ar ef maður þekk­ir ekki um­hverfið og get­ur ekki lesið í aðstæður eins og snjóflóðahættu, mjög mik­inn bratta í fjall­lendi eða sprung­ur á jökli. Ég segi hik­laust að þeir sem hafa áhuga á að fara út í fjalla­skíðamennsku verði fyrst að geta skíðað í flest­öll­um brekk­um skíðasvæða áreynslu­laust og í breyti­leg­um snjóaðstæðum. Það er mun erfiðara að skíða ut­an­braut­ar en í troðinni braut, erfiðara en marg­ir halda. Það er líka mjög mik­il­vægt að vera í góðu lík­am­legu formi og að maður geti verið á skíðum all­an dag­inn án þess að ör­magn­ast,“ seg­ir hún og bæt­ir við að það sé mjög mik­il­vægt að  fara í fjalla­skíðaferðir með reynd­um leiðsögu­manni hafi maður ekki þessa þekk­ingu sjálf­ur.

Í brekkum sem þessari er gott að vera þrautþjálfaður á ...
Í brekk­um sem þess­ari er gott að vera þrautþjálfaður á fjalla­skíðum. Ljós­mynd/​Aðsend

Fram und­an er vertíð

Á Íslandi er að finna heil­mikið af spenn­andi stöðum til að stunda fjalla­skíðin og fyr­ir þá sem eru komn­ir lengra í íþrótt­inni mæl­ir Inga Dag­mar hik­laust með Super Troll Race á Sigluf­irði. „Mjög skemmti­legt mót og virki­lega vel að því staðið í frá­bæru um­hverfi. Það er alltaf gam­an að fara aðeins út fyr­ir þæg­ind­aramm­ann. Svo er Trölla­skag­inn og norðan­vert Snæ­fells­nes í al­geru upp­á­haldi hjá mér. Þar er að finna fjöl­breytt­ar og skemmti­leg­ar skíðabrekk­ur í stór­kost­legu um­hverfi.“

Fram und­an er vertíð hjá Ingu Dag­mar enda besti tím­inn til fjalla­skíða á vor­in. „Í vor er ég á fullu með fjalla­skíðahóp­inn minn sem heit­ir Skíðatopp­ar og við för­um í marg­ar skemmti­leg­ar skíðaferðir og end­um tíma­bilið í maí á því að fara norður á Trölla­skag­ann, í fjalla­skíðap­ara­dís­ina sem verður topp­ur­inn hjá mér.“

Hversu mikið situr þú? (birt á visir.is 05012018)

Unnur Pétursdóttir skrifar

Sjúkraþjálfarar hafa nú í vaxandi mæli tekið upp það kerfi við mat á hreyfingu skjólstæðinga sinna að í stað þess að spyrja um hreyfingu, þá er spurt: Hversu mikið situr þú á hverjum degi? Það er nefnilega að mörgu leyti betri mælikvarði á hreyfingu eða hreyfingarleysi, því fólk á almennt mun auðveldara með að skilgreina hvað er að sitja, heldur en hvað fellur undir hreyfingu. Og svörin eru oft sláandi. Dæmigerður Íslendingur getur þannig setið 1 klst á dag á leið í/úr vinnu, setið 8-10 klst við vinnu, setið 2 klst fyrir framan tölvu heima og aðrar 2 klst við sjónvarp. Þannig er stærstum hluta vökutíma varið í algera kyrrsetu.

Margir telja sig eiga erfitt með að stunda líkamsrækt vegna tímaleysis eða annarra aðstæðna. Þá er sjálfsagt að taka tillit til þeirra aðstæðna og sníða sér stakk eftir vexti. Ertu bundin(n) yfir börnum? Farðu út og hreyfðu þig með þeim. Er stigi þar sem þú vinnur/býrð? Stigar eru snilldaræfingartæki. Ertu hreyfihamlaður? Fullt af tilboðum fyrir aldraða/fatlaða, leitið og þér munuð finna. Ertu bíllaus? Farðu þinna ferða gangandi og náðu þannig 10-12.000 skrefum á dag. Ganga er auðveldasta og aðgengilegasta líkamsrækt sem fyrirfinnst og hægt að flétta inn í daglegt líf langflestra.

Hreyfing er besta forvörnin til viðhalds heilsu en einnig besta meðferð með hægt er að beita við fjöldamörgum sjúkdómum og kvillum sem hrjá fólk. Væri til lyf með jafn breiðvirka virkni og hreyfing veitir, þá væri það kallað kraftaverkalyf.

Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag er hætt við að heilsan, færnin og hreyfigetan verði af skornum skammti á gamals aldri. Eru 30 mín á dag þér ofviða? Hversu miklum tíma verð þú í tilgangslitla tölvunotkun daglega? Hversu mikið situr þú?

Höfundur er formaður Félags sjúkraþjálfara

http://www.visir.is/g/2018180109398

 

 

Vöðvabólga er ekki bólga (tekið af vef: SÍBS BLAÐIÐ 33. árg. 3. tbl. október 2017)

 

27. 10. 2017

Þegar talað er um að fólk sé með vöðvabólgu er almennt verið að tala um það sem nefnist á ensku „myalgia“, eða „myofascialpain syndrome (MPS). Þetta leiðindaástand er afar algengt og rannsóknarniðurstöður telja algengi kringum 21-30% í Bandaríkjunum, sem þýðir um 44 miljónir manna og kostnaður heilbrigðiskerfisins er árlega um 47 billjón dollarar. (1)

Ekki bólga

Íslenska orðið „vöðvabólga“er því miður misvísandi því að ekki er um hefðbundna bólgu og/eða bólguviðbrögð að ræða.  Heldur má segja að vöðvinn þrútni um leið og hann stífnar, missir oft teygjanleika, styrk og úthald og stundum myndast svokallaðir „trigger punktar“ í honum. (2-5)  Þannig verður vöðvinn oft fyrirferðarmeiri og stífari en áður var, en þessi stífni er oft tilkomin vegna of mikillar spennu, sem hins vegar er talin vera tilkomin af mismunandi orsökum.  Þessi bólguumræða hefur meðal annars komið þeirri umræðu af stað að gott sé að taka inn bólgueyðandi lyf þegar fólk fær vöðvabólgu, en svo er oftast ekki, nema í mesta lagi af óbeinum ástæðum eins og til dæmis þeim að bólginn liður sé að valda stífni í vöðvanum (varnarspenna út af liðbólgunni). Þá getur spennan í vöðvanum minnkað um leið og liðbólgan minnkar.

Spenna

Það sem talið er að gerist í vöðvanum við þessar aðstæðurs em kallast vöðvabólga, er að vöðvinn er spenntari en góðu hófi gegnir og því verður blóðflæðið minna um hann. Spennti vöðvinn þrengir þannig að æðum vöðvans. Við þær aðstæður kemst ekki nægjanleg næring og súrefni til hans, sem þarf í raun enn meiri næringu í þessari sífellu spennu, og úrgangsefnin sem koma frá vöðvanum komast ekki öll í burtu sem skyldi og safnast því upp í honum.  Þessi efni gera vöðvavefinn enn stífari og þar með hefur vítahringur myndast.(4) Til að rjúfa þennan vítahring þarf að auka blóðflæðið um vöðvann með öllum tiltækum ráðum.  Ef vöðvinn er orðinnmjög stífur viðkomu, sem gerist með tímanum, þarf einnig að leggja mikla áherslu á að mýkja vöðvavefinn. Æfingar eru í aðalhlutverki við að rjúfa þennan vítahring, æfingar sem stuðla að auknum styrk, úthaldi og teygjanleika viðkomandi vöðva, en einnig getur fleira hjálpað eins og t.d. mjúkvefjameðferð og nálastungur. (4,5) Stundum eru vöðvarnir búnir að valda fleiri vandamálum í stoðkerfinu með tímanum. Til dæmis geta þeir þrengt að taugum og valdið ertingum eða hamlað liðhreyfingum. Taka þarf á þeim vandamálum samhliða því að mýkja vöðvana, þegar það á við.

Orsakir

En af hverju skyldi fólk fá vöðvabólgu?  Eins og fyrr segir eru ástæðurnar margar og mismunandi en tengjast oftast ofnotkun vöðvans á einn eða annan hátt. Nefnd hefur verið varnarspenna vöðva vegna bólginna liða, en varnarspenna getur einnig komið vegna annarra þátta sem tengjast verkjum eða varnarviðbrögðum líkamans á ýmsan hátt. Dæmi um hvað hefur slæm áhrif á þetta ferli er t.d. streita og slæm líkamsbeiting. Það er því mikilvægt að skoða venjur fólks í leik og starfi þegar unnið er á þessum vanda. En fyrst er að greinavandamálið og komast að því hvað veldur og setja svo upp meðferðaráætlun í kjölfarið.

Gunnar Svanbergsson og Hólmfríður B. Þorsteinsdóttir, MT-sjúkraþjálfarar og sérfræðingar í greiningu og meðferð stoðkerfis
SÍBS BLAÐIÐ 33. árg. 3. tbl. október 2017

http://sibs.is/allar-greinar/lydheilsa/1614-voedhvabolga-er-ekki-bolga

Heimildaskrá:

 1. Borg-Stein J, Iaccarino MA. Myofascial pain syndrome treatments. PhysMed Rehabil Clin N Am. 2014;25(2):357-374.
 2. Muller CE, Aranha MF, Gaviao MB. Two-dimensional ultrasound andultrasound elastography imaging of trigger points in women withmyofascial pain syndrome treated by acupuncture and electroacupuncture:A double-blinded randomized controlled pilot study. UltrasonImaging. 2015;37(2):152-167.
 3. Adigozali H, Shadmehr A, Ebrahimi E, Rezasoltani A, Naderi F. Reliabilityof assessment of upper trapezius morphology, its mechanical propertiesand blood flow in female patients with myofascial pain syndrome usingultrasonography. J Bodyw Mov Ther. 2017;21(1):35-40.
 4. Dommerholt J, Chou LW, Finnegan M, Hooks T. A critical overview ofthe current myofascial pain literature – june 2017. J Bodyw Mov Ther.2017;21(3):673-683.
 5. Ariji Y, Ariji E. Magnetic resonance and sonographic imagings ofmasticatory muscle myalgia in temporomandibular disorder patients. JpnDent Sci Rev. 2017;53(1):11-17.

Að forðast byltu og koma í veg fyrir beinbrot (birt á visir.is 9. mars 2017)

 

Líkaminn þarf hreyfingu til að vaxa og dafna, hreyfing sem er fullnægt gegnum vinnu fer víða minnkandi, störf eru sérhæfðari og vélvæddari sem leiðir til meiri kyrrsetu. Hreyfingarleysi dregur úr vöðvastyrk og hætta er á að beinmassi minnki hraðar en ella sem aftur kallar á aukna hættu á beinbrotum ef fólk dettur. Aldraðir hafa ekki síður en yngra fólk not fyrir styrka vöðva og gott jafnvægi. Það er þekkt að aldraðir eiga auðvelt með að lenda í  vítahring minnkaðar hreyfingar vegna hræðslu við að detta. Í Noregi hefur skráning leitt í ljós að þeir sem eru eldri en 65 ára eru í meiri hættu á að verða fyrir slysi á heimili.

Margir þættir stuðla að byltum meðal aldraðra, oftast er um að ræða samverkandi þætti ellihrörnunar, sjúkdóma og lyfja. Hægt er að grípa til einfaldra ráða til að draga úr fallhættu með því að auka vöðvastyrk og liðleika, einnig með því að hagræða og fækka slysagildrum í heimahúsum.

Þungaberandi æfingar sem bæta gönguhraða, vöðvastyrk og jafnvægi eldra fólks geta dregið úr byltum um 25-30%. Gott er að bæta æfingum inn í daglega iðju, t.d. má nota stiga og ganga innanhúss til að ganga rösklega yfir veturinn þegar hálka og snjór er úti. Jafnvel má nota bílakjallara á þeim tímum sem umferð er lítil. Það er ekki verra að hafa göngufélaga til að spjalla við, en rannsóknir hafa sýnt að það viðheldur hæfni til að gera tvennt í einu.

Það er einnig mikilvægt að fyrirbyggja fall með því að fækka slysagildrum í heimahúsum. Algengar slysagildrur eru þrengsli og hindranir í gangvegum, lausar rafmagnssnúrur, teppakantar og mottur sem auðvelt er að hrasa um. Hál eða blaut gólf til dæmis á baðherbergi, þar getur stöm motta í sturtu eða baðkari ásamt handfangi auðveldlega komið í veg fyrir fall. Einnig getur verið kostur að hafa stól í sturtunni eða sæti í baðkarinu. Hægt er að hækka salerni með þar til gerðri salernisupphækkun til að auðveldara sé að standa á fætur. Sjúkratryggingar Íslands sjá um ráðgjöf og afgreiðslu hjálpartækja samkvæmt ákveðnum reglum.

Góð lýsing skiptir líka máli, og gott getur verið að hafa næturljós sem lýsir leiðina á baðherbergið. Mikilvægt er að standa rólega á fætur, en það á sérstaklega við um þá sem eiga á hættu blóðþrýstingsfall eða svima. Meiri hætta er á að detta þegar gengið er á sokkaleistunum en í skóm. Skipuleggið þannig að ekki þurfi að klifra upp á stól til að ná í hluti í hillu eða skáp. Hafa skal handrið við tröppur og allir ættu að nota mannbrodda á skó og stafi í hálku.

Samkvæmt rannsókn í Noregi, deyja fleiri þar af völdum slysa á heimili en í umferðinni. Með einföldum lausnum og hagræðingu má fyrirbyggja byltu og jafnvel brot, sem dregur úr kostnaði heilbrigðiskerfisins en fyrst og fremst kemur það í veg fyrir þjáningu og skert lífsgæði einstaklingsins sem á í hlut. Bætum lífsgæði, stundum hreyfingu og fyrirbyggjum byltur, bætum lífi við árin ekki bara árum við lífið.

Inga Jónsdóttir iðjuþjálfi

Inga Jónsdóttir iðjuþjálfi
http://www.visir.is/ad-fordast-byltu-og-koma-i-veg-fyrir-beinbrot/article/2017170308789

 

Hvað er sykursýki? (tekið af vefnum diabetes.is 29.01.2017)

Hvað er sykursýki?

Sykursýki er langvinnur sjúkdómur sem leiðir til of mikils sykurs (glúkósa) í blóðinu, því líkaminn getur ekki brotið niður sykur á eðlilegan hátt.

Almennt um sykursýki

Fræðiheitið á sykursýki er diabetes mellitus. Sykursýki er efnaskiptasjúkdómur sem einkennist af of háum blóðsykri sem stafar annað hvort af of litlu magni insúlíns í blóði eða af óeðlilegri virkni insúlíns í blóðinu.

Helstu tegundir sykursýki eru þrjár

Tegund 1

Þessi tegund sykursýki þróast þegar flestar eða allar frumurnar sem framleiða insúlín í brisinu eyðileggjast og af hlýst verulegur insúlínskortur. Algengast er að fá sjúkdóminn á barns- eða unglingsaldri, en þó getur fólk fengið hann síðar.

Tegund 2

Briskirtillinn framleiðir insúlín en virkni þess er verulega skert. Líkaminn leitast í byrjun við að leiðrétta þennan galla með því að auka insúlínframleiðslu umfram það sem eðlilegt er, til þess að viðhalda jafnvægi. Eftir nokkur ár gefur briskirtillinn sig, insúlínframleiðslan minnkar og blóðsykurinn hækkar í framhaldi af því. Þess vegna hefur þessi hæggengi sjúkdómur oftast verið til staðar í mörg ár áður en hann greinist. Hjá 80% sjúklinga eru orsakir sjúkdómsins tengdar lífsstíl, yfirþyngd og hreyfingarleysi en hjá hinum 20% er insúlínframleiðsla of lítil miðað við þörf þrátt fyrir að þeir séu í kjörþyngd.

Helstu áhættuþættir varðandi sykursýki af tegund 2 eru

 • Að eiga ættingja með sykursýki
 • Að hafa fengið sykursýki á meðgöngu
 • Að vera of þung/ur
 • Að hafa of háan blóðþrýsting
 • Að þjást af æðakölkun (t.d. kransæðastíflu)
 • Að hafa of háa blóðfitu (kólesteról og þríglýseríða)

Tegund 3

Meðgöngusykursýki

Sjúkdómurinn kemur oft fram á seinni hluta meðgöngu. Konan framleiðir ennþá insúlín en það virkar ekki eins vel og áður en hún varð þunguð. Mataræði og hreyfing er mikilvæg fyrir þroska fóstursins og oft er nauðsynlegt að bæta insúlíni við meðferðina til að halda blóðsykurgildum innan eðilegra marka.

Helstu einkenni um sykursýki eru

 • þorsti
 • tíð þvaglát
 • þreyta
 • lystarleysi og þyngdartap
 • kláði umhverfis kynfæri
 • sýkingar í húð og slímhúð

Þessi einkenni eiga við um allar tegundir sykursýki. Ef einstaklingur er með þessi einkenni er ráðlagt að leita til læknis sem fyrst.

Sykursýki er meðhöndluð með

 1. Réttu mataræði
 2. Hreyfingu
 3. Lyfjagjöf

http://diabetes.is/sjukdomurinn/

Lewy Body sjúkdómurinn (tekið af vef Alzheimersamtakanna 29.01.2017)

Lewy body heilabilun er meðal þeirra heilabilunarsjúkdóma sem auk þess að hafa í för með sér ýmis einkenni heilabilunar, geta einnig komið fram sem hreyfitruflanir sambærilegar þeim sem fólk með Parkinsonssjúkdóminn fá. Annað sem einkennir lewy body eru sjónrænar ofskynjanir, skiftandi athygli,  ruglástand með ranghugmyndum, byltur og fleira. Óþol fyrir geðlyfjum er einkennandi.

Sjúkdómurinn er nefndur eftir þýskum lækni, Frederick Lewy sem fyrstur lýsti þeim sérstöku breytingum sem verða á heilafrumunum við þennan sjúkdóm. Skiptar skoðanir eru um algengni Lewy sjúkdómsins, en líklega er hann algengari en talið er. Það getur verið flókið að greina sjúkdóminn, einkennin geta bæði vísað til Alzheimerssjúkdómsins og Parkinsonssjúkdómsins og því líður oft langur tími þar til  endanleg sjúkdómsgreining liggur fyrir. Orsök sjúkdómsins er óþekkt og ekki er talið að hann sé arfgengur. Með hækkandi aldri aukast líkurnar á því að veikjast. Því miður hefur ekki verið fundin lækning við lewy body.

http://www.alzheimer.is/allt-um-heilabilun-tegundir-heilabilunar/#10

Alzheimer sjúkdómur (tekið af vef Alzheimersamtakanna 29.01.2017)

Alzheimerssjúkdómur er  taugahrörnunarsjúkdómur og algengasta orsök heilabilunar. Alois Alzheimer var þýskur læknir sem árið 1906 lýsti einkennum sjúkdómsin fyrstur manna og  sýndi hann jafnframt fram á mjög einkennandi breytingar í heila sjúklingsins. Sjúkdómurinn er algengastur hjá eldra fólki, en yngri einstaklingar geta líka veikst.

Einkenni Alzheimerssjúkdómsins  koma hægt og smjúgandi og geta verið afar óljós og margslungin. Þegar sjúkdómsgreiningin liggur endanlega  fyrir, er algengt að aðstandendur tali um að það séu mörg ár síðan eitthvað fór að breytast, það var bara svo erfitt að átta sig á hvað var að gerast. Gleymska er yfirleitt fyrsta einkennið sem tekið er eftir , einkennin verða smám saman meira og meira áberandi og fara að hafa meiri áhrif á líf einstaklingsins og gera honum erfiðara að takast á við tilveruna. Þessu ferli getur fylgt mikill kvíði og öryggisleysi

Engin lækning er ennþá við Alzheimerssjúkdómnum, en til eru lyf sem geta hægt á ferlinu og aukið vellíðan einstaklingsins. Þrátt fyrir þetta er mikilvægt að fá greiningu á sjúkdómnum eins snemma í ferlinu og kostur er, bæði til þess að fá viðeigandi meðferð en líka til þess að geta verið virkur þátttakandi í því að skipuleggja framtíðina. Að mörgu þarf að hyggja og margir þurfa að koma að málum ef vel á að takast til. Aðstandendur eru hvattir til að leita sér aðstoðar, fá ráðgjöf og stuðning.