Jafnvægisþjálfun skilar góðum árangri (mbl 19.3.2019)

Óstöðugt aldrað fólk getur bætt jafnvægi, gönguhraða, vöðvastyrk og öryggi við daglegar athafnir með skynörvandi jafnvægisþjálfun. Þetta er meðal þess sem kemur fram í doktorsritgerð Bergþóru Baldursdóttur

Á Landakoti er sérhæfð móttaka fyrir aldrað fólk með sögu um jafnvægisskerðingu, byltur og/eða beinbrot. Anton Brink

Bergþóra er sérfræðingur í öldrunarsjúkraþjálfun. Hún ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands fimmtudaginn 21. mars. Ritgerðin ber heitið: Jafnvægisstjórnun og áhrif skynþjálfunar: Óstöðugt eldra fólk og einstaklingar sem hlotið hafa úlnliðsbrot við byltu.

„Á Landakoti, þar sem ég vinn sem sjúkraþjálfari, er starfrækt sérhæfð móttaka fyrir aldraða einstaklinga með sögu um jafnvægisskerðingu, byltur og/eða beinbrot. Þar höfum við um nokkurra ára skeið beitt skynörvandi jafnvægisþjálfun. Þetta er þjálfunar­aðferð sem ég, ásamt leiðbeinanda mínum í doktorsverkefninu, dr. Ellu Kolbrúnu Kristinsdóttur, þróuðum á Landakoti. Hún beinist að örvun skyns í fótum, jafnvægiskerfis í innra eyra og þjálfun fallviðbragða. Þessi þjálfun reyndist strax áhrifarík og vildi ég undirbyggja notagildi hennar með rannsóknum,“ segir Bergþóra innt eftir því af hverju þetta efni varð fyrir valinu í doktorsverkefni hennar.

Tveir ólíkir hópar

Í doktorsverkefninu rannsakaði hún áhrif skynþjálfunarinnar á meðal óstöðugs eldra fólks og 50 til 75 ára einstaklinga sem höfðu dottið og úlnliðsbrotnað.

„Ástæða þess að ég valdi þessa tvo hópa fólks er annars vegar hversu algengt vandamál óstöðugleiki og byltur eru hjá öldruðum. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt að úlnliðsbrot hjá þessum yngri aldurshópi hafa forspárgildi fyrir síðari brot, þar á meðal mjaðmarbrot hjá öldruðum sem skert geta verulega lífsgæði, jafnvel valdið dauða og eru mjög kostnaðarsöm,“ segir Bergþóra sem vildi rannsaka hvort skynþjálfunin gæti bætt stöðugleika og minnkað byltuhættu hjá þessum einstaklingum. „Jafnframt vildi ég rannsaka hvað einkenndi þá sem höfðu dottið og úlnliðsbrotnað og bera þann hóp saman við sambærilegan hóp einstaklinga sem ekki höfðu dottið og úlnliðsbrotnað.“

Framkvæmd rannsóknar

Mælingar og þjálfun aldraða hópsins fór fram í sjúkraþjálfun á Landakoti. Þátttakendur mættu í 18 æfingatíma undir handleiðslu sjúkraþjálfara og þjálfuðu í sex vikur. Skráður var fjöldi byltna tólf mánuðum fyrir þjálfun, á þjálfunartímabilinu og sex mánuðum eftir að henni lauk.

„Fólkið sem hafði úlnliðsbrotnað tók þátt í rannsókninni tveimur til fimm mánuðum eftir brotið. Því var skipt tilviljunarkennt í tvo hópa til viðbótar við hefðbundna brotameðferð, annars vegar í hóp sem fékk skynörvandi jafnvægisþjálfun og hins vegar viðmiðunarhóp sem gerði æfingar sem beindust að því auka styrk og stöðugleika úlnliðsins,“ lýsir Bergþóra en hjá þeim sem höfðu úlnliðsbrotnað, voru æfingaskiptin sex undir handleiðslu sjúkraþjálfara, auk daglegra heimaæfinga í 12 vikur.

Mælingar fóru fram á rannsóknarstofu í heyrnar- og jafnvægisvísindum við læknadeild Háskóla Íslands og á Landspítala Landakoti. Skynörvandi jafnvægisþjálfunin fór fram í Sjúkraþjálfuninni Styrk undir handleiðslu Hólmfríðar H. Sigurðardóttur sjúkraþjálfara. Úlnliðsþjálfunin fór fram í sjúkraþjálfun á Landspítala í Fossvogi undir handleiðslu Anne Melén sjúkraþjálfara.

Jafnvægið er flókið fyrirbæri

En hvað er skynörvandi jafnvægisþjálfun? „Stjórnun jafnvægis í uppréttri stöðu og hreyfingu er flókið ferli samhæfðra hreyfinga sem stýrt er af miðtaugakerfinu en miðtaugakerfið nýtir fyrri reynslu og boð frá skynkerfum. Þannig veitir sjónin upplýsingar um aðstæður í umhverfinu og skynviðtakar í vöðvum, sinum, liðböndum og húð gefa upplýsingar um stöðu og hreyfingar líkamans ásamt þungadreifingu á iljum. Jafnvægiskerfi í hægra og vinstra innra eyra skynja stöðu og hreyfingar höfuðs með tilliti til aðdráttarafls jarðar, þau samþætta höfuð- og augnhreyfingar og senda boð sem virkja fallviðbrögð þegar stöðugleika okkar er ógnað,“ útskýrir Bergþóra.

Hún lýsir því að hrörnunarbreytingar tengdar auknum aldri hafi fundist í öllum kerfum líkamans sem taki þátt í jafnvægisstjórnun. Þá fækki skynviðtökum í jafnvægiskerfi innra eyra og taugaþráðum sem bera boð frá þeim með auknum aldri. „Þessar breytingar geta gerst með ósamhverfum hætti, þ.e. minni starfsemi verður í jafnvægiskerfi annars eyrans miðað við hitt. Slík ósamhverfa leiðir til truflaðra skilaboða frá jafnvægiskerfinu, fallviðbrögð verða ómarkvissari og hætta á byltum eykst,“ segir Bergþóra og bendir einnig á að skyn og vöðvastyrkur í fótum minnki með hækkandi aldri og tengist einnig óstöðugleika og dettni meðal aldraðra.

„Hugsunin að baki skynörvandi jafnvægisþjálfuninni er að örva og bæta nýtingu á því skyni sem einstaklingurinn býr yfir, ásamt því að bæta úrvinnslu upplýsinga sem berast frá hinum mismunandi skynkerfum til miðtaugakerfis. Tilgangurinn er einnig að þjálfa upp markvissari fallviðbrögð til að gera einstaklinginn hæfari til þess að bregðast við óvæntri jafnvægisröskun og forðast byltur.“

Fjölbreyttar æfingar

Í æfingunum eru einstaklingarnir berfættir, en það örvar skynvitund í fótum að sögn Bergþóru. „Athygli þeirra beinist ávallt að dreifingu þunga á iljar til að örva skynjun og bæta stjórnun á stöðu og hreyfingum líkamans. Æfingarnar eru í byrjun gerðar á hörðu undirlagi en síðan einnig á mjúku, sem er erfiðara. Þjálfaður er stöðugleiki samfara hreyfingum á höfði í kyrrstöðu og á hreyfingu með augu ýmist opin eða lokuð. Fallviðbrögð eru þjálfuð sérstaklega og fólki kennt að bregðast við jafnvægisröskun til að hindra að það detti. Þessar æfingar krefjast mikillar einbeitingar af þátttakendum.“ Til að framfarir verði sem mestar segir Bergþóra að mikilvægt sé að æfingarnar verði sífellt erfiðari upp að mörkum sem eru við eða ofan getu hvers einstaklings.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að skynörvandi jafnvægisþjálfunin bætti jafnvægi, gönguhraða, vöðvastyrk og öryggi við daglegar athafnir á meðal hinna óstöðugu öldruðu einstaklinga.

Jákvæðar niðurstöður

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að skynörvandi jafnvægisþjálfunin bætti jafnvægi, gönguhraða, vöðvastyrk og öryggi við daglegar athafnir á meðal hinna óstöðugu öldruðu einstaklinga. „Jafnframt gáfu niðurstöður til kynna að skynþjálfunin gæti fækkað byltum hjá þeim. Hjá fólkinu sem hafði úlnliðsbrotnað batnaði jafnvægið í kjölfar þjálfunarinnar, sérstaklega hjá þeim sem mældust með skert jafnvægi við upphaf hennar.“

Niðurstöður leiddu einnig í ljós að þeir sem höfðu dottið og úlnliðsbrotnað voru með marktækt fleiri byltur og beinbrot að baki en þeir sem ekki höfðu hlotið úlnliðsbrot við byltu. „Þá hafði þessi hópur þróað með sér þætti sem spá fyrir um frekari byltur og brot, þar á meðal skerðingu á skyni í fótum, ójafna starfsemi í jafnvægiskerfi innra eyra og skertan vöðvastyrk í fótum,“ segir Bergþóra.

Þarf að huga meira að jafnvægisþjálfun

Bergþóra segir úlnliðsbrot algengust hjá einstaklingum á aldrinum 45-60 ára. Meðferð þeirra sem hljóti úlnliðsbrot við byltu í dag, beinist að meðhöndlun brotsins. Jafnvægi sé sjaldnast metið, þar sem takmörkuð þekking hafi legið fyrir um það hvort aldurstengdar breytingar í skyn- og hreyfikerfum séu farnar að skerða jafnvægisstjórnun hjá þessum hópi.

„Mínar rannsóknarniðurstöður styðja mikilvægi þess að þeir sem detta og úlnliðsbrotna, fái fræðslu um að slíkt brot geti verið vísbending um að viðkomandi hafi þróað með sér áhættuþætti sem spá fyrir um frekari byltur og beinbrot. Því ætti að benda þeim á mikilvægi þess að láta meta jafnvægi sitt og fá ráðleggjandi æfingar til að viðhalda því ef ástæða þykir. Í slíku jafnvægismati mætti líta til þeirra þátta sem rannsókn mín sýndi að tengdust því sterkast að viðkomandi tilheyrði úlnliðsbrota hópnum. Einstaklingum sem mælast með skert jafnvægi ætti að standa til boða skynþjálfun eins og sú sem við þróuðum í sjúkraþjálfun á Landakoti eða sambærileg jafnvægisþjálfun sem sannað hefur gildi sitt í rannsóknum.“