Byltuvarnir að vetri til (tekið af vef Beinverndar 29.01.2017)

11.01.2016

walkingonice

Þegar snjókorn falla þá fellur fólk líka. Byltur vegna hálku er ein af hættum vetrarveðurs og geta valdið alvarlegum áverkum s.s. blæðingum, brotnum beinum og jafnvel höfuðmeiðslum.

Nokkur góð ráð:

  • Skipuleggja fram í tímann. Skipuleggðu ferðir miðað við veður. Ef þú þarft ekki að vera á ferðinni slepptu því. Bíddu þar til veður lagast og búið er að moka og sanda gangstíga.
  • Gefðu þér nægan tíma til af komast á milli staða.  Líkur á byltum aukast þegar þú hleypur og flýtir þér vegna þess að þú ert að verða of sein(n).
  • Veldu leiðina vel.  Leitaðu að öruggustu leiðinni að áfangastað, hvort heldur þú ert akandi, hjólandi eða gangandi. Veldu einnig öruggustu leiðina inn í bygginguna sem þú er að fara í. Stundum er þessi venjulega leið ekki sú besta. Það getur farið eftir því hvernig hálkuvörnum er við komið hverju sinni.
  • Biddu um aðstoð.  Fáðu einhvern til að hjálpa þér yfir götuna eða yfir hálkusvæðið.
  • Leggðu þitt af mörkum . Ef inngangar í byggingar eru hálar og gangstéttir ekki öruggar þá er gott að láta vita af því og biðja um að það sé mokað, saltað og sandað.
  • Veldu réttu skóna.  Skóbúnaður er mikilvægur og velja skal skó sem styðja vel við fót og eru með stömum botni. Mannbroddar eru mjög gagnlegir. Vertu varkár. Gakktu varlega. Vertu meðvituð/meðvitaður um möguleikann á því að þú gætir runnið til. Forðastu freistinguna að spretta úr spori til að ná í strætó – bíddu eftir þeim næsta.
  • Bílastæði. Vertu sérstaklega varkár þegar þú ferð út út bílnum og inn í hann á bílastæðinu. Haltu í hurðina eða bílinn þegar þú stígur út  til að fá auka stuðning. Gættu þess að bílar geta runnið til á bílastæðinu.
  • Sjónin. Léleg sjón getur gert okkur lífið leitt í hálkunni og aukið hættuna á byltum. Gott að fara reglulega og láta athuga sjónina og hvort gleraugun/linsurnar séu að gera sitt gagn.
  • Mörgæsa göngulag. Þegar gengið er í hálku (á ís) er gott að taka stutt skref og draga lappirnar í hverju skrefi, halla líkamanum aðeins fram þannig að þyngdarpunkturinn sé fyrir framan ökkla, kreppa tærnar og stíga með jöfnum þunga í alla ilina.
  • Hafðu lausar hendur.  Vertu í vettlingum eða hönskum til að halda höndunum heitum, ekki hafa hendur í vösum. Það er betra fyrir jafnvægið að hafa lausar hendur. Fara skal varlega ef halda þarf á þungum hlut eða barni í hálku því það er svo auðvelt að missa jafnvægið.
  • Moka snjónum í burt eins fljótt og hægt er.  Haltu anddyrinu, stéttinni, gangveginum að húsinu og bílastæðinu snjólausu eins og kostur er með því að moka, salta og sanda. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að hættulegir hálkublettir myndist. Það getur tekið tíma að bíða eftir því að það hláni – jafnvel marga daga!

ice_slip

Heimild: Denver Post

Áhættuþættir beinþynningar (tekið af vef Beinverndar 29.01.2017)

1. Kyn: Konur eru í þrefalt meiri hættu á að fá beinþynningu en karlar.  Það er  m.a. vegna þess að hámarks beinþéttni kvenna er minni en karla og eftir tíðarhvörf eykst niðurbot beina til muna hjá konum. Þær þurfa því að huga sérstaklega að mataræði sínu og hreyfingu. Konur sem fara snemma í tíðarhvörf eru í aukinni hættu, svo og konur sem gengist hafa undir legnám.

2. Aldur: Bein gisna með aldrinum, kvenna mun meira en karla. Beinþynning hefst oft hjá konum eftir tíðahvörf og er beintapið oft mikið fyrsta áratuginn eftir.  Eftir sjötugt er beintapið svipað hjá körlum og konum.

3. Erfðir: Líklegt er talið að hámarksbeinstyrkur sem næst, sé að hluta til bundinn erfðum og hugsanlega stjórna erfðir einnig beintapi.  Þessi erfðaþáttur er m.a. skýringin á því, að hafi móðir eða faðir fengið beinþynningu, eykur það líkur á að afkomandi fái sjúkdóminn.

4. Lífsstíll/umhverfi:  Beinin þarfnast bæði næringar og áreynslu til að haldast sterk og heilbrigð.

  1. Næring.  Næring skiptir máli fyrir heilbrigði beina á öllum aldri.  Þess vegna er heilbrigt mataræði mikilvægt. Ýmsar kalkríkar fæðutegundir t.d. mjólk og mjólkurvörur innihalda þau næringarefni sem eru hvað mikilvægust fyrir beinin.  D-vítamín er nauðsynlegt til að kalkið nýtist beinunum. Við fáum D-vítamín úr fæðutegundum eins og lýsi.
  2. Líkamsþyngd/undirþyngd. Konur sem ekki hafa hafa ekki náð að byggja um nægilega mikinn beinmassa eru í meiri hættu á að fá beinþynningu og einnig þær konur sem eru smábeinóttar. Farsælast er að byggja upp beinforða sinn í uppvextinum, allt til þrítugs, og taka síðan upp þráðinn á ný á efri árum.
  3. Hreyfingarleysi. Sýnt þykir að hæfileg hreyfing hefur góð áhrif á öllum aldri, ekki síst meðal eldra fólks. Öll líkamshreyfing og þjálfun virðist vera til góðs en göngur og hreyfing sem felur í sér þungaburð er áhrifaríkast í baráttunni við beinþynninguna. Mikilvægt er að þjálfunin sé reglubundin a.m.k. þrisvar sinnum í viku 15-30 mínútur í senn. Öll hreyfing er betri en engin. Einstaklingur sem hefur þegar hlotið beinbrot eða samfall á hryggjarlið vegna beinþynningar ætti þó ekki að gera æfingar nema í samráði við lækni og sjúkraþjálfara því mikilvægt er að æfingarnar séu rétt framkvæmdar og án álags á þá líkamsstaði sem eru veilir.
  4. Reykingar. Reykingar stuðla að  beinþynningu.
  5. Áfengi. Áfengisneysla í óhófi eykur hættu á beinþynningu.

5. Sjúkdómar: Sjúkdómar sem hafa áhrif á kalkbúskapinn geta valdið beinþynningu.  Þeir eru: ofstarfsemi skjaldkirtils, liðagigt, dreifðir illkynja sjúkdómar í beinagrind eða langvinnir meltingar- eða lifrarsjúkdómar.

6. Lyf: Eftirtalin lyf eru talin geta valdið beinþynningu.

  1. Sykursterar, t.d. prednisolon, notað við asthma og bólgusjúkdómum.
  2. Flogaveikilyf.
  3. Ofskömmtun á skjaldkirtilshormónum.

https://www.beinvernd.is/ahaettuthaettir

EULAR 2016 – Ný og endurskoðuð meðferðarráð í vefjagigt (tekið af vefnum vefjagigt.is 28.01.2017)

Í ár birti EULAR  (the europian leage against rheumatism) nýjar tillögur að meðferð í vegjagigt  en þær eldri eru síðan 2007. Þetta módel er byggt á rýni á niðurstöðum 107 viðurkenndra vísindagreina, en þverfaglegur hópur á vegum EULAR vann að þessu greiningar- og matsferli undir stjórn prófessors Gary MacFarlane.

Niðurstöður þessa þverfaglega Eularhóps eru að grunnmeðferðarþættir eigi alltaf að vera:

  • Greining á sjúkdómnum
  • Viðeigandi fræðsla
  • Hreyfing/þjálfun við hæfi

Þessi tilmæli eru semsagt byggð á vísindalegum grunni en þau fela í sér að það að fá greiningu, viðeigandi fræðslu um sjúkdóminn og meðferðarúrræði og að fá leiðbeiningu og stuðning við að koma þjálfun í farveg eigi að vera grunnþættir í meðferðarferli í vefjagigt.

Ef þessar íhlutanir duga ekki einar og sér þá þarf sértæk og einstaklingsmiðuð meðferðarúrræði við einkennum en EULAR tilmælin eru þá eftirfarandi:

  • Mælt er með hugrænni atferlismeðferð fyrir þá einstaklinga sem eru með kvíða eða þunglyndi sem afleiðu vefjagigtar eða  annarskonar hegðunarfrávik.
  • Mælt er með geðdeifðarlyfjum fyrir þá einstaklinga sem eru haldnir geðsjúkdómi á illvígara stigi.
  • Mælt er með tramadoli, pregabalini eða duloxitine  fyrir einstaklinga með illvíga verki og/eða svefntruflanir.

Eins og kom fram í upphafi þá eru þessar leiðbeiningar settar fram eftir bestu vísindalegu þekkingu á vefjagigt í dag en enn er þó margt á huldu sem vonandi skýrist betur á næstu árum. Í dag eru fá lyf sem gagnast vel í vefjagigt og enn hafa engin lyf verið sammþykkt í Evrópu sem sértæk lyf í vefjagigt en í Bandaríkjunum hafa nokkur lyf verið samþykkt sem sértæk lyf í vefjagigt. Niðurstöður lyfjarannsókna hafa t.d. sýnt að einungis 40% -50% fólks með vefjagigt hafa einungis um 30% bata af viðkomandi lyfi, hinum gagnast þau ekki.

Og þó að þessi nýju tilmæli EULAR feli í sér að þjálfun sé sterklega það sem mælt er með þá er ekki enn vitað hvaða þjálfun hentar best eða gefur mestan bata. Og sama má segja um hugræna atferlismeðferð þar vantar matstæki til að meta hvort að sú meðferð muni henta einstaklingnum því að hún hentar einfaldlega ekki öllum.

En það er frábært að hópur vísindamanna hafi unnið að því að setja fram þetta módel og það er frábært að vita til þess að um allan heim eru vísindamenn að leggja sitt á vogarskálarnar til að bæta þekkingu á vefjagigt og frábærast finnst mér að koma á stórar ráðstefnur um gigt og/eða verki og sjá og heyra fjallað um vefjagigt eins og alla aðra sjúkdóma – þar eru engar efasemdir um tilurð VEFJAGIGTAR.

Og í lokin langar mig til að geta þess að Þraut ehf – miðstöð vefjagigtar og tengdra sjúkdóma vinnur eftir þessu sama módeli og EULAR var að gefa út.

 

Höfundur: Sigrún Baldursdóttir sjúkraþjálfari MT’c, MPH.

http://www.vefjagigt.is/frettir/eular-2016-ny-og-endurskodud-medferdarrad-i-vefjagigt

Beinþynning (tekið af vef Beinverndar 28.01.2017)

Beinin eru lifandi vefur sem inniheldur kalk og er í stöðugri endurbyggingu, þ.e. niðurbrot og nýmyndun eiga sér stað, enda þótt fullum vexti sé náð. Þar eru að verki bæði beinmyndunarfrumur (osteoblastar) og beinúrátur (osteoclastar).  Á aldrinum milli 20-40 ára er jafnvægi þarna á milli og beinmagnið helst stöðugt. Á þessum aldri er beinmassinn mestur.   Röskun á þessu jafnvægi beinmyndunar og beinniðurbrots veldur því að beinvefurinn rýrnar og það ástand skapast sem við köllum beinþynningu.  Beinþynning er mjög útbreiddur sjúkdómur,  milljónir manna um allan heim eru haldnir honum.  Flestir vita ekki að þeir eru með sjúkdóminn því hann er einkennalaus uns brotastigi er náð.   Með brotastigi er átt við að beinin eru orðin svo stökk og viðkvæm að þau geta brotnað við lítinn áverka.

Beinþynning - Visuals_bone

Við beinþynningu þynnist hin harða og þétta skurn beinanna og frauðbeinið sem fyllir hol þeirra gisnar.   Við þetta minnkar styrkur beinsins, þau verða stökk og hætta á brotum eykst við minnsta átak.

Algengasta orsökin fyrir röskun á þessu jafnvægi eru þær hormónabreytingar sem verða í líkama kvenna við tíðarhvörf þegar estrogen þéttnin minnkar. Estrogegn er kvenhormón sem virðist hafa verndandi áhrif á bein með því að hemja áhrif beinúrátanna (osteoclastanna). Þegar estrogen magnið minnkar verður virkni beinúrátanna meiri og beinmyndunarfrumurnar ná ekki að bæta það upp svo að bein tapast.

Beinþynning - Visuals vertebrae  Beinþynning - Visuals vertebrae

Hér að ofan eru tvær myndir af hryggjarliðum, heilbrigðum og  samföllunum.

Afleiðing beinþynningar eru beinbrot við lítinn áverka, einkum á efri árum.  Algengust þessara brota eru framhandleggsbrot, hryggsúlubrot og mjaðmarbrot.

Framhandleggsbrot gróa oftast án fylgikvilla.  Samfallsbrot á hrygg eða hrun veldur gjarnan miklum og stundum langvinnum verkjum.  Líkamshæðin lækkar með tímanum þ.e. líkaminn bognar.  Þá fylgja aflögun í vexti oft verulegar sálarþjáningar.   Lærleggshálsbrot eru alvarlegust og nær alltaf afar sársaukafullt.  Það er umtalsverð dánartíðni fyrstu vikurnar eftir brotið og margir ná aldrei fyrri getu.

Hér á landi verða a.m.k. 1300 einstaklingar fyrir beinbrotum árlega sem rekja má til beinþynningar.  Þannig verða árlega a.m.k. 2-300 mjaðmarbrot, flest innan dyra.  Hvert mjaðmarbrot  leiðir til innlagnar á sjúkrahús þar sem gera þarf uppskurð þar sem brotið er sett saman með stálnöglum.  Þetta er dýrt fyrir þjóðfélagið þ.e. kostnaður sem er a.m.k. 1-2 milljónir og ekki má gleyma þjáningum og erfiðleikum sjúklinganna.

Það er fátt sem rýrir lífsgæði eins mikið á efri árum og beinþynning.

https://www.beinvernd.is/beinthynning